Við sjáum um að úrelt veiðarfæri séu hreinsuð, flokkuð og send til endurvinnslu
Forveri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Landssamband íslenskra útvegsmanna, gerði samning við Úrvinnslusjóð í ágúst 2005 um úrvinnslu á veiðarfæraúrgangi úr gerviefnum. Veiðarfæri úr gerviefnum voru því undanþegin svokölluðu úrvinnslugjaldi, sem átti að leggja á 1. september 2005. Samningurinn tók gildi 1. janúar 2006. Með samningnum skuldbundu samtökin sig til að reka eða semja við þriðja aðila um rekstur á viðurkenndri móttökustöð fyrir endurnýtanlegan veiðarfæraúrgang úr gerviefnum og koma honum til endanlegrar úrvinnslu.
Markmið samningsins er að sjávarútvegur beri ábyrgð á úrvinnslu veiðarfæra úr gerviefnum, leitist við að lágmarka áhrif á umhverfið og halda í lágmarki þeim kostnaði sem fylgir förgun á veiðarfæraúrgangi.
Veiðarfæraúrgangur frá Íslandi er nú aðallega fluttur til endurvinnslu í Litháen, Danmörku og Hollandi. Góður árangur hefur náðst með því fyrirkomulagi og framleiðslan fer m.a. í raf- og bílaiðnað, húsgögn og umbúðir svo fátt sé nefnt. Stöðugt er unnið að því nú um mundir að lágmarka urðun veiðarfæra en nýlega hafa 14 móttökustöðvar opnað allt í kringum landið sem taka á móti öllum veiðarfæraúrgangi, gjaldfrjálst uppfylli þau móttökuskilmála.
Allir íslenskir lögaðilar geta skilað veiðarfæraúrgangi til móttökustöðva um allt land, finna má upplýsingar um móttökustöðvar hér fyrir neðan.
Hér eru nýjustu upplýsingar um móttökustöðvar fyrir úrelt veiðarfæri til endurvinnslu. Ekki er hægt að tryggja að aðrir geti komið veiðarfæraúrgangi til endurvinnslu.