Image 1.jpg

Samtal um sjávarútveg

Samtal um sjávarútveg

Til þess að grafast fyrir um hvað má gera betur í sjávarútvegi og auka skilning og traust héldu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi fjóra fundi um málefni sjávarútvegs síðari hluta vetrar. Efni fundanna var: gagnsæi, umhverfismál, samfélagslegur ábati og nýsköpun.

Sjávarútvegur er grundvallarstoð efnahagslegrar hagsældar á Íslandi og hluti af menningu okkar. Skiljanlegt er að margir hafi skoðun á svo mikilvægri atvinnugrein og nýtingu á náttúruauðlind. Þótt ekki sé víst að nokkru sinni takist að sætta öll sjónarmið er mikilvægt að koma í veg fyrir að tortryggni og illindi verði ráðandi öfl í sambandi sjávarútvegs og þjóðar. Opið og hreinskiptið samtal um sjávarútveginn er leiðin fram á við. Fundirnir voru hluti af vinnu við stefnumótun greinarinnar í samfélagsábyrgð og tekið hefur verið mið af sjónarmiðum sem þar komu fram, bæði frá frummælendum og áheyrendum.

Upptökur af fundum

Hvernig getum við aukið gagnsæi í sjávarútvegi?

Frummælendur: Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands og Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.

Hvernig getur sjávarútvegur gert betur í umhverfismálum?

Frummælendur: Andri Snær Magnason rithöfundur, Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, Gréta María Grétarsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Krónunnar og Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar hf. í Grindavík.

Hvernig skilar sjávarútvegur mestum ábata til samfélagsins?

Frummælendur: Sveinn Agnarsson, prófessor við viðskiptafræðideild HÍ, Pétur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf. og Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA.

Hvernig aukum við nýsköpun í sjávarútvegi?

Frummælendur: Guðmundur Hafsteinsson sérfræðingur í nýsköpun og Berta Daníelsdóttir framkvæmdastjóri Sjávarklasans.

Innra starf

Hildur Hauksdóttir, sérfræðingur í umhverfismálum, kom til starfa hjá SFS í október 2019. Hennar vinna lýtur fyrst og fremst að umhverfis- og samfélagsmálum. Hún hefur unnið að því að greina hvað felst í samfélagsábyrgð sjávarútvegs og hvernig sjávarútvegurinn getur risið undir henni og á sama tíma styrkt og bætt reksturinn. Settur var saman hópur félagsmanna sem unnið hefur náið með skrifstofu SFS, ásamt stjórn, í stefnumótun samfélagsábyrgðar.

Vinnufundur SFS um samfélagsábyrgð var haldinn 4. mars 2020. Öllum félögum í SFS var boðið og mættu yfir 20 stjórnendur í íslenskum sjávarútvegi. Á fundinum var farið yfir málefni samfélagsábyrgðar og síðan fékk fundarfólk það verkefni að móta lykiláherslur íslensks sjávarútvegs í umhverfismálum og samfélagsábyrgð. Lagðar voru fram 6 lykilspurningar og unnið með þær í 4 vinnuhópum, í þremur verkefnalotum. Fjallað var um loftslagsmál, málefni hafsins, ábyrga framleiðslu, stjórnarhætti, mannauðsmál og öryggismál. Miklar umræður voru í öllum hópum þar sem reifaðar voru hugmyndir og í lokin var þeim hugmyndum forgangsraðað.

Vinnufundur um samfélagsábyrgð

Tímalína stefnumótunar

Des 2017

Umhverfisskýrsla SFS gefin út

Maí 2018

HB Grandi (nú Brim) birti fyrstu samfélagsskýrslu íslensks sjávarútvegs

Okt 2019

Sérfræðingur í umhverfismálum ráðinn til SFS

Feb 2020

Samtal um sjávarútveg hefst

Mar 2020

Vinnustofa haldin með félagsmönnum SFS

Jún 2020

SFS fer um landið og kynnir stefnuna fyrir félagsmönnum

Sep 2020

Sjávarútvegsfélög skrifa undir samfélagsstefnu sjávarútvegs