Líf í hafi
Það er stórt efnahagslegt og félagslegt hagsmunamál fyrir íslenska þjóð að ástand fiskistofna sé gott og upplýsingar um veiðar og umgengni við vistkerfi hafsins séu traustar, rekjanlegar og gagnsæjar. Ábyrg og góð umgengni í náttúrunni er skilyrði fyrir því að fiskistofnar við Ísland verði áfram nýttir með sjálfbærum hætti.
Aukinn útblástur gróðurhúsalofttegunda hefur leitt til loftslagsbreytinga og hlýnunar jarðar. Sjórinn dregur í sig þann varma og hlýnar, sem hefur áhrif á hafstrauma og lífsskilyrði í hafinu. Sjórinn dregur einnig í sig stóran hluta af koldíoxíði sem losnar og leiðir það til súrnunar sjávar. Staða loftslagsmála er því ógn við sjávarútveg á norðurslóðum og um heim allan.
Við viljum efla rannsóknir á vistfræði og efnafræði sjávar og efla skilning á áhrifum hlýnunar og súrnunar sjávar og plastmengunar á lífríki hafsins.