Image 1(4).jpg

Öryggismál

Á sjó og landi

Við leggjum áherslu á heilsu og öryggi starfsfólks og vinnum markvisst að því að draga úr hættu við vinnu og í starfsumhverfi

Vinnum markvisst að öryggis- og vinnuverndarmálum

Aðildarfyrirtæki Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) leggja mikla áherslu á öryggi starfsmanna aðildarfyrirtækja, heilbrigði og vinnuvernd. Samtökin hafa að leiðarljósi að fækka slysum og óhöppum í atvinnugreininni. Innan SFS starfar öryggisráð þar sem öryggisstjórar og fulltrúar aðildarfyrirtækja sitja, auk fulltrúa SFS. Ráðið fundar reglulega um öryggismál. Til að stuðla að bættu öryggi starfsfólks í sjávarútvegi og styðja aðildarfyrirtæki í þeirri viðleitni var ráðist í gerð öryggishandbókar. Í henni er lögð áhersla á öryggi, heilbrigði og vinnuvernd fyrir starfsfólk í fiskvinnslu. Ráðið fékk til liðs við sig ráðgjafa frá verkfræðistofunni Verkís og er handbókin unnin af öryggisráði SFS í samstarfi við hana. Efni bókarinnar byggist á almennu efni um öryggismál, ásamt áhættumati og sérhæfðum upplýsingum frá fyrirtækjunum sjálfum.

Þótt meginefni handbókarinnar sé um öryggismál í fiskvinnslu, nýtist hún einnig öðrum aðildarfyrirtækjum SFS og er henni því sömuleiðis ætlað að vera uppflettirit fyrir starfsfólk sem sinnir öryggismálum. Fyrirtæki geta jafnframt stuðst við hana við gerð eigin handbóka eða annars fræðsluefnis. Hlutaðeigandi fyrirtæki geta þá eftir þörfum bætt við efni sem er lýsandi fyrir starfsemi þeirra.

Markmiðið með öryggishandbók fyrir fiskiskip er að stuðla að öryggi um borð, koma í veg fyrir slys og hindra óhöpp. Handbókin er leiðarvísir að skilvirkri öryggisstjórnun þar sem allar útgerðir hafa aðgang að sömu forskrift en aðlaga hana að sínum skipum eins og best þykir.

Náttúran getur verið óblíð og mannskæð sjóslys voru tíð á árum áður. Talið er að allt að 48 sjómenn hafi árlega drukknað hér við land á árunum 1900-1975 og 14 að meðaltali árin 1975-1985. Síðustu ár hafa banaslys verið fátíð. Samkvæmt Rannsóknarnefnd sjóslysa urðu engin banaslys á íslenskum sjómönnum við strendur landsins á árinu 2020 og var það sjöunda árið sem það gerist og fjórða árið í röð.

Þennan góða árangur má þakka betri skipum og búnaði, fiskveiðistjórnunarkerfinu og ekki síst starfi Slysavarnaskóla sjómanna sem stofnaður var árið 1985. Þar fer fram fræðsla um öryggismál og slysavarnir og er nám við skólann forsenda lögskráningar á skip.

Slysavarnaskóli sjómanna

Slysavarnaskóli sjómanna er í eigu Landsbjargar. Hann var stofnaður árið 1985 til að sinna öryggisfræðslu fyrir sjómenn. Námskeið á vegum skólans eru öllum opin og þar eru haldin námskeið sem henta þeim sem vinna á sjó, við hafnir eða dvelja við leik og störf við ár eða vötn. Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á fjölda afmarkaðra námskeiða, sem sniðin eru að þörfum íslenskra sæfarenda.

Markmið skólans er að auka öryggi sjómanna með fræðslu og þjálfun í meðferð björgunar- og öryggisbúnaðar og með almennri fræðslu um slysavarnir á sjó.

  • Að vinna stöðugt að umbótum á fræðslu til íslenskra sjómanna um öryggismál á sjó.
  • Að leggja áherslu á að námskeið og þjónusta skólans uppfylli ávallt væntingar viðskiptavina skólans.
  • Að aðstoða áhafnir í öryggismálum um borð í skipum þeirra.
  • Að vera virkur þátttakandi í mótun öryggismála sjómanna.
  • Að bjóða upp á skyldunámskeið um öryggisfræðslu sjómanna, samkvæmt STCW samþykktinni, miðað við þarfir íslenska skipastólsins.

Nánari upplýsingar um Slysavarnaskóla sjómanna.

Fræðsluefni Samgöngustofu

Samgöngustofa hefur gefið út bækur og rit ætluð til fræðslu sjómanna sem varða meðal annars öryggi á sjó. Bæklingar og myndefni má finna á vefsvæði Samgöngustofu.

Nánari upplýsingar um fræðsluefni Samgöngustofu um öryggismál.

Fræðslumyndbönd öryggisáætlunar sjófarenda

Ábyrg sjómennska

Vinna í mikilli hæð um borð í skipum

Vinna í lokuðum rýmum um borð í skipum

Meðhöndlun hættulegra efna um borð í skipum