Ábyrgur sjávarútvegur

í sátt við umhverfi og samfélag

Þetta er í okkar höndum

Íslenskur sjávarútvegur tekur hlutverk sitt alvarlega sem framleiðandi matvæla og ein af burðarstoðum efnahagslegrar hagsældar þjóðarinnar. Fyrirtæki innan vébanda Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hafa markað sér stefnu í samfélagsábyrgð sem grundvallast á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Heimsmarkmiðin voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015. Vísað er til markmiðanna í samfélagsstefnu sjávarútvegs.

Stefnan verður endurskoðuð reglulega. Forsvarsmaður fyrirtækis, sem ritar undir stefnuna, ber ábyrgð á að henni sé framfylgt.

Svona gerðum við þetta

Síðustu mánuði höfum við kallað eftir röddum úr sjávarútvegi og samfélaginu með opnum fundum og vinnustofum. Afraksturinn er samfélagsstefna sem verður leiðarljós okkar í því hvernig við ætlum að vera jákvætt afl fyrir samfélagið, hafið og umhverfið.

stefnuhringur.png

Grunngildin í samfélagsstefnu sjávarútvegs eru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 14 (Líf í hafi) og 9 (Nýsköpun og uppbygging). Í stefnunni er einnig fjallað um önnur undirmarkmið sem eru ekki síður mikilvæg.

Líf í hafi

Það er stórt efnahagslegt og félagslegt hagsmunamál fyrir íslenska þjóð að ástand fiskistofna sé gott og upplýsingar um veiðar og umgengni við vistkerfi hafsins séu traustar, rekjanlegar og gagnsæjar. Ábyrg og góð umgengni í náttúrunni er skilyrði fyrir því að fiskistofnar við Ísland verði áfram nýttir með sjálfbærum hætti.

Aukinn útblástur gróðurhúsalofttegunda hefur leitt til loftslagsbreytinga og hlýnunar jarðar. Sjórinn dregur í sig þann varma og hlýnar, sem hefur áhrif á hafstrauma og lífsskilyrði í hafinu. Sjórinn dregur einnig í sig stóran hluta af koldíoxíði sem losnar og leiðir það til súrnunar sjávar. Staða loftslagsmála er því ógn við sjávarútveg á norðurslóðum og um heim allan.

Við viljum efla rannsóknir á vistfræði og efnafræði sjávar og efla skilning á áhrifum hlýnunar og súrnunar sjávar og plastmengunar á lífríki hafsins.

Styður heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna

Nýsköpun og uppbygging

Nýsköpun og fjárfesting eru mikilvæg forsenda árangurs í umhverfismálum. Með nýsköpun er einnig lagður grunnur að verðmætum störfum í sjávarútvegi og tengdum atvinnugreinum. Það stuðlar síðan að áframhaldandi þróun og viðheldur góðum árangri á sviði umhverfismála. Íslenskur sjávarútvegur mun áfram taka þátt í þessari vegferð. Með nýsköpun myndast tækifæri sem enginn sér fyrir og því munum við halda áfram að greina þau, nýta gögn og fjárfesta í leiðum og lausnum til að gera sífellt betur.

Styður heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna

Umhverfi

heilbrigt haf - allra hagur

Bætum hringrásina

Við nýtum auðlindir hafsins á sjálfbæran og lögmætan hátt. Við leitumst við að búa til verðmæti úr öllu hráefni og tökum með okkur allan úrgang í land samkvæmt reglum um losun á sorpi frá skipum í sjó í V. viðauka Marpol.

 • Við leitumst við að flokka allt sorp sem fellur til á sjó og landi og komum veiðarfærum í endurvinnslu
  • Með endurvinnslu og endurnýtingu reynum við að skapa verðmæti úr úrgangi sem til fellur í starfsemi fyrirtækisins. Allur úrgangur sem fellur til á sjó, til dæmis veiðarfæri, plast, úrgangsolía, glussi, umbúðir, járn og gler, er tekinn með til hafnar og flokkaður að því marki sem mögulegt er.
  • Við eflum fræðslu um endurvinnslu veiðarfæra og sjáum sjálf um að úrelt veiðarfæri séu hreinsuð, flokkuð og send til endurvinnslu.
  • Við leggjum okkar af mörkum við hreinsun hafsins með því að taka með til hafnar allt rusl úr sjó sem í veiðarfæri kemur.
 • Við tryggjum rekjanleika afurða.
 • Við lágmörkum umhverfisáhrif af flutningum og umbúðum og útrýmum sóun.
 • Við stundum ekki ólöglegar veiðar.
 • Við leggjum okkur fram við að uppræta brottkast.
 • Við leggjum okkur fram um að tryggja matvælaöryggi.

Lágmörkum sótsporið

Stefna sjávarútvegsfyrirtækja er að mæla og meta losun á gróðurhúsalofttegundum og nýta tækifæri til að takmarka og draga úr umhverfisáhrifum í samræmi við tækniþróun. Við munum hvetja til notkunar og styðja enn frekar þróun og nýtingu á umhverfisvænni tækni, bæði á sjó og í landi.

Við stefnum að lágmörkun sótspors með því að:

 1. mæla sótsporið
 2. draga enn frekar úr losun
 3. jafna og binda kolefni

Orkunýting og orkuskipti

Við leitum leiða til að minnka notkun á jarðefnaeldsneyti:

 • Við smíði á nýjum skipum leggjum við áherslu á hagkvæma orkunýtingu og umhverfismál, alveg frá hönnun.
 • Við reynum að koma auga á tækifæri til að draga út notkun á jarðefnaeldsneyti og auka hlutdeild vistvænna orkugjafa, sem eru raunhæfir og samkeppnishæfir.
 • Um leið og tækifæri gefast skiptum við út HFC kælimiðlum fyrir aðra sem valda ekki gróðurhúsaáhrifum, og við nýsmíði skipa leggjum við áherslu á vistvæna kælimiðla.
Styður heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna

Stjórnarhættir

Innleiðum starfs- og siðareglur

Íslenskur sjávarútvegur starfar af heilindum og á áreiðanlegan og sanngjarnan hátt. Stefna okkar er að vinna gegn spillingu í hvaða formi sem er.

 • Við erum heiðarleg í viðskiptum og gætum að orðspori íslensks sjávarútvegs.
 • Við leitumst við að tryggja að starfsemi okkar sé samkvæmt lögum og reglum, hvort sem hún er á Íslandi eða í útlöndum.
 • Við öxlum ábyrgð á eigin ákvörðunum og athöfnum og beitum dómgreind í samræmi við aðstæður.
 • Við stuðlum að gagnsæjum starfsháttum og góðum samskiptum á vinnustað og utan hans.
 • Við leggjum okkar skerf til samfélagsins, lögum samkvæmt.
 • Við gerum þá kröfu til birgja að þeir framfylgi lögum og reglum í hvívetna.
 • Við hvetjum starfsfólk til að tilkynna brot í starfseminni til stjórnenda fyrirtækisins.

Mælst er til þess að fyrirtæki í sjávarútvegi fylgi leiðbeiningum um góða stjórnarhætti.

Við stuðlum að gagnsæi og birtum ófjárhagslegar upplýsingar.

Við skuldbindum okkur til að birta árlega ófjárhagslegar upplýsingar um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti, þar sem stuðst er við alþjóðlega viðurkennd viðmið. Við birtum skattspor, upplýsingar um hvar skattar eru greiddir og viðskipti við tengda aðila. Við gerum jafnframt grein fyrir fyrirtækinu, samstæðu og eigendum.

Styður heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna

Félagsþættir

Gott starfsfólk er forsenda velgengni fyrirtækja í sjávarútvegi. Okkur er ljós sú ábyrgð sem við berum gagnvart starfsfólki okkar og við höfum virðingu að leiðarljósi í öllum okkar samskiptum. Við viljum að vinnustaðir séu öruggir og góðir, og búi yfir hæfu og traustu starfsfólki sem vinnur í samræmi við markmið okkar í umhverfismálum og samfélagsábyrgð. Við erum virk í verkefnum sem varða uppbyggingu í nærsamfélögum okkar.

Aukum jafnrétti og tryggjum mannréttindi

 • Við tryggjum jöfn tækifæri og virðum fjölbreytileika.
 • Við líðum ekki mismunun. Mismunun vegna kyns, kynhneigðar eða ólíks uppruna er óheimil á vinnumarkaði.
 • Störf munu ekki vera skilgreind sem karla- eða kvennastörf og við leitumst við að tryggja launajafnrétti.
 • Við skuldbindum okkur til að fara að gildandi lögum og reglum um mannréttindi sem lúta meðal annars að nauðungar- og þrælkunarvinnu, barnavinnu og misrétti á vinnustöðum. Við munum aldrei líða vinnumansal eða barnavinnu, hvorki hjá okkur né þeim sem fyrir okkur starfa.
 • Við virðum rétt starfsfólks til félagafrelsis og kjarasamninga.

Vinnum markvisst að öryggis- og vinnuverndarmálum

Við leggjum áherslu á heilsu og öryggi starfsfólks og vinnum markvisst að því að draga úr hættu við vinnu og í starfsumhverfi. Markvisst er unnið að öryggis- og vinnuverndarmálum með öflugri öryggisfræðslu. Við leitumst við að tryggja öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi þar sem einelti, ofbeldi og kynferðisleg áreitni er með öllu óheimilt. Grípa skal strax til viðeigandi aðgerða þegar grunur leikur á að brot hafi verið framið.

Styðjum menntakerfið í málefnum sjávarútvegs

 • Við styðjum starfsfólk til að auka þekkingu sína og færni.
 • Við eflum tengsl við menntakerfið og kynnum spennandi atvinnumöguleika í sjávarútvegi um allt land.
 • Við tökum öll virkan þátt í að gera vinnustaðinn betri.
Styður heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna